Erlent

Mestu óeirðir í nær áratug

Eldarnir í Belfast loguðu fram eftir degi í kjölfar mestu óeirða síðari ára sem brutust út í Belfast í fyrrinótt. Þúsundir baráttumanna úr röðum mótmælenda gengu berserksgang eftir að yfirvöld bönnuðu þeim að ganga um hverfi kaþólikka til að minnast sigra mótmælenda á kaþólikkum fyrr á öldum. Mótmælendurnir réðust á lögreglumenn og breska hermenn, kveiktu í bílum og unnu margvísleg önnur skemmdarverk. Mestar voru óeirðirnar í Belfast, höfuðstað Norður-Írlands, en þær breiddust út til sjö þorpa og kaupstaða þar sem mótmælendur eru í miklum meirihluta íbúanna. Að sögn Hugh Orde, yfirmanns lögreglunnar, slösuðust 32 lögreglumenn í bardögum við óeirðaseggi aðfaranótt sunnudags og fram eftir degi. Hann sagði að þeir sem fóru fremstir í flokki þeirra sem voru með ólæti hefðu verið drukknir fullorðnir mótmælendur og táningspiltar. Orde sagði þó að tvenn samtök mótmælenda sem eru bönnuð vegna ofbeldisverka félagsmanna sinna hefðu skipulagt óeirðirnar, það eru samtökin Varnarlið Ulster og Sjálfboðaliðar Ulster. Meðal þess sem lögreglumenn fundu var aðstaða til sprengjugerðar. Mótmælendur á Norður-Írlandi hafa ekki staðið fyrir jafn útbreiddum óeirðum og í fyrrinótt frá árinu 1996, þá stóðu óeirðirnar yfir í fjórar nætur í röð. Talsmenn Óraníureglunnar, samtaka mótmælenda, gagnrýndu lögreglu fyrir harkalegar aðgerðir þegar ganga mótmælenda hófst og sagði aðgerðir lögreglu hafa verið eins og þær gerðust verstar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×