Erlent

Danadrottning tekur Grikki í sátt

Margrét Þórhildur Danadrottning hefur ákveðið að þiggja boð um að fara í opinbera heimsókn til Grikklands. Það þykja stórtíðindi því hún hefur ekki viljað stíga þar fæti í tæp fjörutíu ár. Konungsfjölskyldunni grísku var steypt af stóli í valdaráni hersins árið 1967. Og ástæða þess að Margrét Danadrottning tók það svo nærri sér er auðvitað sú að Anna María, systir hennar, er gift Konstantín sem þá var konungur Grikklands. Konungshjónin flýðu til Rómar en eftir að herstjórnin féll árið 1974 var ákveðið að Grikkland skyldi verða lýðveldi og var konungsfjölskyldunni fyrrverandi bannað að koma til landsins. Á meðan systir hennar og mágur gátu ekki ferðast til landsins þar sem þau höfðu ríkt áður þá gat Margrét ekki hugsað sér að fara þangað heldur. Nú virðist heldur vera farið að hlýna á milli dönsku konungsfjölskyldunnar og grískra stjórnvalda og segir danska dagblaðið B.T. í dag að drottningin og Hinrik drottningarmaður haldi að öllum líkindum til Grikklands í maí á næsta ári og jafnvel komi til greina að Konstantín og Anna María fái að fara með, en þá aðeins sem venjulegir borgarar með dönsk vegabréf.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×