Erlent

Pólitískir vinir Bush

Slæleg viðbrögð við fellibylnum Katrínu leiða til sífellt harðari gagnrýni á Bush Bandaríkjaforseta og nánustu samstarfsmenn hans. Colin Powell hefur nú bæst í hóp gagnrýnendanna og í dag var greint frá því að yfirmenn almannavarna væru ekki fagmenn heldur pólitískir vinir Bush. Öllum sem vildu komast frá New Orleans hefur nú verið bjargað. Lögreglu- og björgunarsveitir hafa fengið það hlutverk að koma þeim sem ekki vilja fara á brott. Talið er að um tíu þúsund manns hafist ennþá við í borginni og segja björgunarmenn á vettvangi að margir séu með óráði. Hægt og rólega lækkar yfirborð vatnsins í borginni sem er nánast orðið þykkt af drullu, bensíni, olíu, spilliefnum, braki, bakteríum og líkum. Björgunarstarfið er nú komið í ágætis horf en gagnrýnin á hversu lengi það tók fer vaxandi. Dick Cheney, varaforseti Bandaríkjanna, var á ferð um hamfarasvæðin í gær til að reyna að slá á gagnrýnina. Hann sagði að björgunarstörf miðaði vel áfram en mikið verk væri enn óunnið. „Umfang þessa verkefnis er að endurheimta allt í New Orleans og Suður-Louisiana. Þetta er gríðarlegt,“ sagði Cheney.   Kannanir benda til þess að almenningur sé Bush forseta reiður vegna viðbragðanna. Sextíu og sjö prósent aðspurðra í könnun Pew-rannsóknarstofnunarinnar sögðust telja að forsetinn hefði getað brugðist hraðar og betur við en tuttugu og átta prósent voru á því að hann hefði gert allt sem hann gat. Colin Powell bættist í hóp gagnrýnendanna í dag. Hann var talinn líklegur stjórnandi samhæfðra aðgerða yfirvalda en í viðtali sem birt verður í kvöld á sjónvarpsstöðinni ABC segir hann að víðtæk mistök hafi verið gerð á öllum stjórnvaldsstigum. Viðvaranir hafi verið margar og komið tímanlega en lítið sem ekkert hafi verið gert. Gagnrýnin beinist einnig að stjórnendum FEMA, almannavarnanna vestra. Washington Post greinir frá því í dag að fæstir þeirra séu fagmenn á sviði almannavarna heldur pólitískir stuðningsmenn og vinir Bush forseta. Fagmennirnir hafi yfirgefið stofnunina þegar þeir tóku við. Nú undir kvöld greindi heimavarnaráðherra Bandaríkjanna svo frá því að Michael Brown, yfirmaður almannavarna, stýrði ekki lengur björgunaraðgerðum á hamfarasvæðunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×