Innlent

Háskólinn gróðrastía geðsjúkdóma

Tvö þúsund geðsjúklingar stunda nám við Háskóla Íslands og það þarf að sinna þeim, segir formaður Geðhjálpar. Hann segir kennara við skólann hrokafulla í garð nemenda og verst sé ástandið í læknadeild og í sálfræði. Sigursteinn Másson, formaður Geðhjálpar, hélt fyrirlestur í Háskóla Íslands í dag, undir yfirskriftinni: Háskóli Íslands, gróðrastía geðraskana. Þar vísaði hann meðal annars í grein í breska blaðinu Guradian þar sem sagt var frá rannsókn sem sýndi að ungum háskólanemum væri mun hættara við geðröskunum en öðru ungu fólki og konunglega breska sálfræðingafélagið sagði að hlutfallið væri einn af hverjum fjórum. Hann sagði að engin ástæða væri til að halda að hlutfallið væri mikið öðruvísi hér á landi og því væri víst að 1000-2000 geðsjúklingar stunduðu nám við Háskóla Íslands. Hann sagði að engin áætlun væri í gangi til að bregðast við þessum vanda. Hann sagði að þær deildir þar sem vandinn væri mestur væru skor þar sem viðfangsefnið er heilsa. Hann sagði það kaldhæðnislegt og ömurlegt að á Íslandi árið 2005 skuli málum vera svo háttað um andlega líðan, kröfuharkan og jafnvel mannfjandsamleg framkoma á köflum skuli fyrirfinnast í deildum eins og læknisfræði og sálfræði. Og reyndar bætti hann lagadeild við. Hann sagði árlega berast hryllingssögur af framkomu við nýnema án þess að við væri brugðist. Ýmsir starfsmenn skólans, sálfræðingur við námsráðgjöf og fleiri tóku undir gagnrýni Sigursteins og sögðu þetta áratugagamalt vandamál. Stefán Sigurðsson, forseti læknadeildar ræddi meðal annars um inntökuskilyrðin, sem hann breytti eftir að gefnu tilefni. Hann sagði að sér hafi blöskrað í mörg ár hvernig farið var með stúdenta í svokölluðum klásus prófum í læknadeild og þá átti hann sérstaklega við deildina. Stefán sagði að eftir að inntökuprófum var breytt hafi engar kvartanir borist. Sigursteinn Másson háskólanemi og formaður Geðhjálpar segir afar brýnt að Háskóli Íslands komi sér upp forvarnaráætlun innan skólans í málefnum geðsjúkra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×