Innlent

Innanlandsflugið til Keflavíkur

Innanlandsflugið til Keflavíkur og veg frá Skerjafirði yfir í Straumsvík. Þverpólitískt félag um þennan möguleika er í burðarliðnum. Yrði hann að veruleika tæki um tuttugu og fimm mínútur að aka frá miðborg Reykjavíkur og út á flugvöll. Formenn allra flokkanna sem eiga kjörna fulltrúa í Reykjanesbæ hafa náð samstöðu um að gangast fyrir stofnun samtaka um að flytja innanlandsflugið til Keflavíkur. Eysteinn Jónsson, segir að félagið sé komið með heimasíðu sem heitir flugkef.is og þar er tækifæri til að gerast stofnfélagi og síðan er ætlunin að halda stofnfund innan tíðar. Hugmyndin er að leggja svokallaða Bessastaðahjáleið, en það er vegur og göng sem lægi frá Skerjafirði og að Straumsvík. Eftir stofnfundinn verður ráðist í að gera úttekt á því hversu raunhæfur þessi möguleiki er og í framhaldinu verður boðað til málþings. Að sögn Eysteins ætti aksturstíminn frá miðborg Reykjavíkur til Keflavíkurflugvallar að verða um 25 mínútur. Þá væri inni í myndinni að hækka hámarkshraða á Reykjanesbraut í 110 kílómetra. Eysteinn segir að þetta ætti ekki að bitna á sjúkraflugi, því samkvæmt þeim upplýsingum sem hann hafi, þá séu fæst þeirra bráðaflutningar og þyrla sé notuð í bráðaflutninga, en þyrlupallur sé við Landspítalann í Fossvogi. Eftir fyrirhugaða úttekt ætti að liggja fyrir hvað þessi leið kostar. Eysteinn sagði að hægt væri að áætla það þannig að einn kílómetri kostaði einn milljarð og honum sýndist þetta því geta kostað um átta milljarða. Eysteinn vildi ekki mikið gefa upp að svo stöddu en sagði að félagið væri að leita eftir alvöru umræðugrundvelli um málið.  



Fleiri fréttir

Sjá meira


×