Erlent

Hátt í milljón við messu páfa

Allt að ein milljón ungmenna frá tæplega tvö hundruð löndum, hlýddi á útimessu Benedikts sextánda páfa í Marienfeld í Þýskalandi í dag. Messan var lokapunktur fyrstu heimsóknar Benedikts til annars lands og brýndi hann fyrir ungdómnum að í trúnni sé ekki hægt að velja og hafna. Heimsmót kaþólskrar æsku var hugmynd Jóhannesar Páls páfa annars sem hrinti henni í framkvæmd fyrir tuttugu árum. Síðan hefur heimsmótið stækkað og vaxið og að þessu sinni voru hátt í milljón ungmenni, flest á aldrinum 16 til 25 ára, sem komu saman í nágrenni Kölnar og var hápunkturinn messan í dag. Flestir komu sér fyrir á túnunum í kringum messustaðinn í Marienfeld kvöldið áður og sváfu undir berum himni til að vera vissir um að missa ekki af páfa. Benedikt páfi hefur í þessari fyrstu heimsókn sinni rætt við leiðtoga annarra trúarbragða í Þýskalandi og hafa þýsk dagblöð eftir gestgjöfum hans að páfi sé greinilega afar ánægður með að fá tækifæri til að heimsækja föðurland sitt - þýskur matur hafi verið á borðum í hvert mál, lifrarpylsa og annar tilheyrandi bæverskur matur, en þar er páfi alinn upp. Í útimessunni í dag lagði páfi áherslu á að kaþólsk trú væri ekki neytendavara þar sem hægt væri að velja sér það sem manni líkaði og sleppa öðru heldur gilti reglan um allt eða ekkert. Hann þótti komast vel frá predikuninni og ná að sýna á sér mannlega og mýkri hlið en hann er þekktur fyrir. Hann þykir þó eiga nokkuð langt í land með að ná jafnvel til fólksins og forveri hans Jóhannes Páll. Páfi tilkynnti einnig að næsta heimsmót kaþólskrar æsku verði haldið í Sydney í Ástralíu að þremur árum liðnum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×