Erlent

Áhrif Vioxx rannsökuð hérlendis

Lyfjarisinn Merck & co. telur kviðdóminn í Texas hafa komist að rangri niðurstöðu þegar hann ákvað að fyrirtækinu bæri að greiða ekkju manns sem hafði dáið úr hjartaáfalli sextán milljarða króna. Ekki er vitað um dauðsföll af völdum Vioxx-lyfsins hérlendis en rannsókn er í bígerð um hvort slíkt hafi hent. Skaðabæturnar sem dæmdar voru Carol Ernst á föstudaginn teljast í ríflegra lagi, eða sextán milljarðar króna en Robert, eiginmaður hennar, lést úr hjartaáfalli eftir að hafa tekið verkjalyfið Vioxx. Allar líkur eru hins vegar taldar á að bótafjárhæðin verði á endanum 1,6 milljarður króna þar sem lög í Texas kveða á um að bætur sem fyrirtæki er dæmt til að greiða í refsingarskyni megi ekki vera meira en tvöfalt hærri en efnhagslegur skaði sem af dauðsfallinu hlýst. Merck hefur þegar sagst ætla að áfrýja dómnum enda telur fyrirtækið niðurstöðu kviðdómsins ekki vera nægilega vel rökstuddan út frá vísindalegu sjónarmiði. Mikið er í húfi því þúsundir málsókna bíða fyrirtækisins vegna dauðsfalla sem sögð eru stafa af Vioxx-neyslu. Vioxx er í flokki svonefndra COX-2 hemla. Það var tekið af markaði hérlendis fyrir um ári síðan þegar grunur vaknaði um að neysla þess gæti verið skaðleg en það hafði þá verið til sölu síðan 1999. Ekki er vitað um neina Íslendinga sem taldir eru hafa látist af völdum þess. Vegna málsins undibýr hins vegar Lyfjastofnun, í samvinnu við Landspítalann og landlæknisembættið, rannsókn þar sem skoðað verður hvort um slíkt geti verið að ræða með því að keyra saman í gagnagrunni notkun á COX-2 hemlum og skráðum hjartaáföllum síðustu árin. "Það er mjög erfitt að fullyrða nokkuð í þessum efnum því hjartaáföll geta komið fyrir hvenær sem er. Undirliggjandi sjúkdómur getur verið orsökin eða eitthvað annað. Það er mjög erfitt að segja að eitthvert tiltekið lyf hafi valdið áfallinu," segir Rannveig Gunnarsdóttir, forstjóri Lyfjastofnunar. Hún ítrekar mikilvægi þess í þessu sambandi að heilbrigðisstarfsmenn tilkynni um allar aukaverkanir lyfja sem þeir frétta af. >



Fleiri fréttir

Sjá meira


×