Erlent

Berjast gegn nauðungarhjónaböndum

Norðmenn ætla að láta Útlendingastofnun sína yfirheyra pakistönsk pör sem vilja giftast þar í landi til að tryggja að það séu ekki nauðungarhjónabönd. Talsvert er um það annars staðar Norðurlöndunum að önnur kynslóð innflytjenda frá íslömskum ríkjum sé til þess neydd af fjölskyldu sinni að ganga að eiga maka sem unga fólkið kærir sig ekkert um. Í Danmörku, Svíþjóð og Noregi hafa ungar konur jafnvel verið myrtar af feðrum eða bræðrum fyrir að neita að hlýða. Javed Asharaf Qaz, menntamálaráðherra Pakistans, sem er í heimsókn í Noregi fordæmdi nauðungarhjónabönd. Hann sagði að fólk yrði að fá að velja sér maka því það þyrfti að búa saman alla ævi. Því ætti ekki að þvinga neinn til hjónabands. Ráðherrann sagði að þótt það gerðist enn í Pakistan að foreldrar hjálpuðu börnum sínum að finna maka heyrðu nauðungarhjónabönd að mestu leyti sögunni til. Erna Solber, byggðamálaráðherra Noregs, fagnaði orðum ráðherrans en upplýsti að tekin hefði verið ákvörðun um að láta pakistönsk pör fara í viðtal hjá Útlendingastofnun áður en hjónaband yrði leyft til að ganga úr skugga um að það væri ósk beggja aðila að giftast. Hún sagði að vonandi yrði hægt að vinna algjörlega bug á þessu vandamáli. Solberg sagði enn fremur að þetta væru vissulega hörð viðbrögð af hálfu hins opinbera en í Noregi yrði ekki liðið að fólk væri neytt í hjónabönd.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×