Erlent

60 ár frá uppgjöf Japana

Forsætisráðherra Japans baðst í dag afsökunar á framferði Japana í síðari heimsstyrjöldinni. Sextíu ár eru frá því Japanar gáfust upp í stríðinu. Stríðsloka er í dag minnst um alla Asíu, en það voru Asíuríki sem urðu hvað mest fyrir barðinu á grimmd Japana í síðari heimsstyrjöldinni. Óhætt er að segja að ekki hafi enn gróið um heilt. Asíuríki eins og Kína, Filippseyjar og Kórea saka Japana um að falsa sögubækur og neita að gangast við ódæðisverkum sínum, ólíkt Þjóðverjum sem eru taldir hafa axlað ábyrgð sína af hreinskilni og hugrekki. Junichiro Koizumi, forsætisráðherra Japans, reyndi að bæta úr þessu í dag, bæði með skriflegri yfirlýsingu og í ræðu sem hann flutti í tilefni dagsins. Hann sagði í síðari heimsstyrjöldinni hefðu Japanar valdið miklu tjóni og þjáningum víða um lönd, einkum í Asíu. Þá vottaði hann þeim sem féllu í stríðinu virðingu sína, bæði í Japan og öðrum löndum. Þá sagði Koizumi að þegar litið væri yfir farinn veg undanfarina 60 friðarára gleymdi fólk ekki hinni hræðilegu lexíu stríðsins og því að áfram yrði stuðlað að friði og hagsæld í heiminum. Japanar myndu treysta bönd friðar við aðrar þjóðir og kappakosta að efla traust þjóða heims á Japan sem friðelskandi þjóð. Nokkur átök urðu við Yasukuni-musterið í Tókýó sem reist var til að heiðra minningu fallinna japanskra hermanna. Kínverjar og Kóreuríkin telja musterið vera svívirðingu við minningu sinna þegna sem urðu fórnarlömb Japana í stríðinu. Meðal þeirra sem musterið heiðrar eru japanskir stríðsglæpamenn, þeirra á meðal Hideki Tojo, forsætisráðherra Japans í styrjöldinni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×