Erlent

Lifði af 400 stungur

Kona á níræðisaldri er á batavegi eftir að hún hlaut fjögur hundruð býflugnastungur skömmu fyrir helgi. Býflugurnar komu frá vegg geymsluhúsnæðis við heimili konunnar, að því er fram kemur á fréttavef CNN. Karlmaður sem staddur var á vettvangi sprautaði vatni úr slöngu á konuna þar til býflugnasveimurinn réðst á hann í staðinn. Tókst manninum að hlaupa býflugurnar af sér og hringja eftir hjálp. Slökkviliðsmenn fundu konuna skömmu síðar þar sem hún lá meðvitundarlaus í götunni og fluttu hana á sjúkrahús. Starfsfólki sem þar hlúir að henni þykir ganga kraftaverki næst hversu fljótt konan jafnar sig, en hún var laus af gjörgæslu í gær.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×