Erlent

Enginn lifði af flugslys

Hundrað tuttugu og einn lét lífið þegar flugvél kýpverska flugfélagsins Helios brotlenti í nágrenni við Aþenu í gær. Sjónarvottar segja að flugvélin hafi flogið inn í hæðótt landslagið norðan við borgina og að kviknað hafi í henni um leið og hún lenti. Brak dreifðist yfir stórt svæði og í kjölfarið braust út mikill eldur sem læsti sig í skógi vaxið umhverfið. Flugvélin var á leiðinni til Prag með millilendingu í Aþenu en tildrög slyssins eru enn nokkuð óljós. Flest bendir til þess að loftþrýstingur hafi skyndilega fallið í vélinni og flugmennirnir misst meðvitund í kjölfar lofteitrunar af þeim völdum. Flugmenn herflugvéla sem sendar voru til að fylgja flugvélinni segjast hafa séð aðstoðarflugmanninn meðvitundarlausan í stjórnklefanum. Þar að auki segjast sjónarvottar sem komu að vélarflakinu hafa séð súrefnisgrímur fyrir vitum líkanna sem lágu á víð og dreif í kring um flakið, en slíkar grímur falla niður í farþegarýminu ef loftþrýstingur breytist. Frændi eins farþegans segist hafi fengið SMS-skilaboð frá honum einungis nokkrum mínútum áður en flugvélin fórst. Þar hafi hann sagt flugmaðurinn væri blár í framan og að fimbulkuldi væri í farþegarýminu. Þetta er talið benda til þess að fleira hafi verið að en bara loftþrýstingurinn. Áður en flugvélin lagði af stað í leiðangurinn fannst bilun í loftræstibúnaði vélarinnar en henni var veitt brottfararleyfi eftir að átt hafði verið við bilunina. Margir hafa viljað tengja þetta beint við slysið og eru fjölmargir aðstsandendur fórnarlamba slyssins á þeirri skoðun að flugfélagið beri ábyrgð á því. Hópur aðstandenda safnaðist saman fyrir framan höfuðstöðvar Helios flugfélagsins og kallaði forsvarsmenn félagsins morðingja. Tildrög slyssins verða vonandi bráðum ljós en grísk flugmálayfirvöld segjast vera búin að finna flugrita vélarinnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×