Erlent

Orsök flugslyssins enn ókunn

Talið er fullvíst að enginn hafi lifað af þegar flugvél með hundrað tuttugu og einn mann innanborðs flaug beint á fjall skammt norðan við Aþenu, höfuðborg Grikklands í morgun. Tildrög slyssins eru ókunn. Vélin, sem var af gerðinni Boeing 737 var farþegaflugvél frá kýpverska flugfélaginu Helios Airlines, á leið frá Larnaka á Kýpur til Prag, með millilendingu í Aþenu. Farþegarnir voru hundrað og fimmtán, auk sex manna áhafnar. Flugmaðurinn hafði samband við flugturninn í Aþenu þegar vélin átti skammt eftir og var svo að skilja að hann hefði skyndilega orðið veikur eða bilun í loftloftkælingarbúnaði. Fjarskiptasamband rofnaði við vélina og voru þá tvær F-16 orrustuþotur sendar til að athuga hvað væri að og til að fylgja henni síðasta spölinn. Flugmenn orrustuþotnanna segja að ekki hafi sést til flugmannsins í stjórnklefanum og aðstoðarflugstjórinn hafi setið hreyfingarlaus í sætinu. Vélin flaug síðan á fjall á í Evboa fjallgarðinum, aðeins nokkra kílómetra frá alþjóða flugvellinum í Aþenu. Frændi eins farþegans fékk SMS-skilaboð skömmu áður en vélin lenti á fjallinu þar sem sagði að flugmaðurinn væri orðinn blár í framan og að það væri nístingskuldi í flugvélinni. Fjölmennt björgunarlið var þegar sent á staðinn en brak úr vélinni dreifðist um stórt svæði. Enginn hefur fundist á lífi. Ítalska blaðið Corriere della Sera hefur eftir flugvallaryfirvöldum í Larnaka að allir farþegarnir hafi verið Kýpverjar en það hefur ekki fengist staðfest. Ættingjar og vinir hafa safnast saman við flugvöllinn í Larnaca og bíða þess að fá einhverjar upplýsingar um afdrif ástvina sinna. Áður en vélin lagði af stað fannst bilun í búnaðinum sem stjórnar þrýstingi í vélinni sem og í samskiptakerfinu en það átti að hafa verið lagað og flugvélin fékk því heimild til brottfarar. Í fyrstu var jafnvel talið að vélinni hefði verið rænt, en gríska lögreglan aftekur það og segir engin merki um slíkt. Líklegra sé að loftþrýstingur hafi skyndilega fallið vegna téðrar bilunar og orðið til þess að flugmennirnir misstu meðvitund. Þetta er versta flugslys í sögu Grikklands. Búið er að finna svörtu kassana tvo úr vélinni og er vonast til að þeir geti skýrt atburðarásina sem á þessu stigi virðist dularfull.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×