Erlent

Frestur landnema rennur út í kvöld

Frestur landnema á Gaza-ströndinni til að yfirgefa heimili sín rennur út á miðnætti. Þeir sem þráast við verða bornir út með valdi þegar líður á vikuna. Því fer fjarri að gyðingarnir níu þúsund sem búa á Gaza séu allir sáttir við að þurfa að fara en fjörutíu ár eru síðan Ísraelar hertóku Gazaströndina. Búist er við að um helmingur íbúanna fari sjálfviljugir.  Samkvæmt áætlun ísraelsku ríkisstjórnarinnar eiga allar landnemabyggðirnar á Gaza, en þær eru tuttugu og ein að tölu, að vera orðnar mannlausar á miðnætti. Þegar íbúarnir sem eftir eru vöknuðu í morgun var rafmagnslaust sem auðveldar sjálfsagt ekki flutninga. Enda voru það ekki stjórnvöld sem stóðu fyrir því, heldur mótmælendur sem eru ákveðnir í að gera hvað þeir geta til að trufla brottflutninginn. Þeir sem ekki hafa yfirgefið heimili sín í kvöld eiga á hættu að missa hluta bótanna sem ríkið greiðir þeim sem flytja en þeir fá tveggja daga frest áður en herinn mætir á staðinn og flytur þá á brott með valdi. Þeir sem ekki ætla að fara sjálfviljugir segja þó ekki koma til greina að beita ofbeldi gegn her og lögreglu þegar þar að kemur, en herinn er við öllu búinn og mun senda fimmtíu og fimm þúsund hermenn til að sinna verkefninu. Í dag var mikill viðbúnaður á svæðinu því einn landnemanna lagði eld að íbúðarhúsi sínu, vöurhúsi á lóð sinni og bifreið. Hann sagðist hafa eyðilagt eigur sínar til þess að Ísraelar kæmust ekki yfir eigur hans.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×