Erlent

Taugatitringur við komu Discovery

Fljúgandi múrsteinn kom eldglóandi í gegnum gufuhvolfið um hádegisbilið í dag. Þar var geimferjan Discovery á heimleið sem olli vægast sagt töluverðum taugatitringi, bæði meðal áhafnarinnar og stjórnenda NASA. Geimferjan er erfitt farartæki undir bestu kringumstæðum. Þó að hún líti glæsilega út er allt annað en auðvelt að stýra þessu hundrað tonna ferlíki á miklum hraða til lendingar. En það verkefni blasti við Eileen Collins og áhöfn í morgun og ekki nóg með það,heldur þurfti hún að stýra ferjunni í aðra átt en upphaflega stóð til. Veðurskilyrði á Flórída voru þannig að sérfræðingum NASA þótti ljóst að þar yrði ekki hægt að lenda, og því var tekin ákvörðun um að stefna á Edwards-flugherstöðina í Kaliforníu. Skömmu eftir klukkan ellefu hóf Discovery aðflug og kom inn í gufuhvoldið á 27 þúsund kílómetra hraða. Hún sveif yfir Kyrrahafið, lækkaði flugið og þegar flugmaðurinn Jim Kelly tók við stjórninni af flugtölvu skömmu síðar varð hann að beygja í 192 gráður til að komast inn á flugbraut 22 á Edwards-vellinum. Collins tók svo við stýrinu síðasta spölinn og lenti Discovery í heilu lagi tólf mínútur yfir tólf á hádegi. Áhöfn og stjórnendur NASA önduðu léttar enda gekk á ýmsu í þessari ferð ferjunnar. Þó að sérfræðingar NASA hafi sagt allt í lagi þorðu fæstir að treysta því að skemmdir sem urðu á ferjunni í og eftir flugtak hefðu engin áhrif. Eftir að hafa vanist því að vera ekki lengur í þyngdarleysi skoðuðu geimfararnir skemmdirnar. Stjórnendur geimferðastöfnunarinnar áttu ekki nægilega sterk orð til að lýsa ánægju sinni með geimfarana sjö. Þrátt fyrir léttinn og ánægjuna með áhöfnina er hætt við að heimkoma Discovery fylgi blendnar tilfinningar fyrir marga hjá NASA og geimáhugamenn. Vegna vandræðana var ferjuflotinn settur í flugbann og þó að enn sé stefnt að því að Atlantis fari í ferðalag í september er viðurkennt að það sé með öllu óraunhæft. Í raun sé allt eins líklegt að geimferjan hafi farið sína síðustu ferð og leið hennar liggi nú á næsta safn. Takist ekki að gera nauðsynlegar lagfæringar á geimferjunum er hætt við að örlög alþjóðlegu geimstöðvarinnar séu líka ráðin, því að ferjuna þarf til að koma byggingarefninu á sinn stað á sporbraut um jörðu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×