Erlent

Mikil gleði eftir björgun kafbáts

Mikil gleði ríkir í Rússlandi eftir að sjö kafbátsmönnum var bjargað heilum á húfi eftir þrjá sólarhringa á hafsbotni. Loftbirgðir kafbátsins fóru hratt þverrandi og áhöfnin gat ekki gert annað en beðið og vonað það besta. Margir rússnesku sjóliðanna um borð í björgunarskipunum tárfelldu þegar dvergkafbáturinn AS-28 skaust upp á yfirborðið og félagar þeirra komu upp um lúguna og veifuðu til þeirra. Kafbátsmennirnir báru sig vel þótt það hljóti að hafa verið mikil eldraun að hírast í ísköldu bátkríli sínu á 190 metra dýpi meðan loftbirgðirnar minnkuðu og minnkuðu. Eldraun þeirra hófst síðastliðinn fimmtudag þegar þeir voru á flotaæfingu undan ströndum Kamsjatkaskaga. Stór netadræsa festist í skrúfunni og kafbáturinn sökk eins og steinn. Á leiðinni niður flæktist hann í einhverja kapla, hugsanlega frá neðansjávar hlustunarstöðvum Rússa. Þegar hann skall á hafsbotninum var hann svo umvafinn drasli að hann haggaðist ekki þótt áhöfnin reyndi að blasa úr ballestunum og gefa allt í born. Dýpið var svo mikið að ekki var nokkur möguleiki fyrir þá að yfirgefa bátinn og synda upp á yfirborðið. Þeir gátu því ekkert annað gert en að bíða og vona að félagar þeirra gætu bjargað þeim. Rússum hefur eflaust verið ofarlega í huga hversu hörmulega tókst til þegar kjarnorkukafbáturinn Kúrsk sökk fyrir fimm árum. 118 sjóliðar fórust með bátnum og mikil reiði braust út meðal þjóðarinnar fyrir seinagang flotans að biðja um aðstoð erlendis frá. Í þetta skipti var samstundis sent út alþjóðlegt neyðarkall. Bretar og Bandaríkjamenn brugðust samstundis við og sendu fjarstýrða björgunarkafbáta flugleiðis til Kamsjatka. Nokkrir rússneskir flotaforingjar af gamla skólanum voru lítið hrifnir af því. Undan ströndum Kamsjatka er mýgrútur af alls konar neðansjávar stöðvum sem eru hernaðarleyndarmál og flotaforingjunum leist ekkert á að fyrrverandi höfuðandstæðingar þeirra fengju að kafa þar. Sem betur fór var ekki hlustað á þá og það var breski kafbáturinn sem klippti kaplana og netadræsunar af AS-28 og dró hann upp á yfirborðið. Varnarmálaráðherra Rússlands, Sergei Ivanov, létti mikið við björgunina. Hann sagði skipverja hafa sýnt hvað í þeim bjó og að þeir hefðu sýnt mikinn baráttuvilja. Þá þakkaði hann sjóliðum í Kyrrahafsflotanum og björgunarmönnum frá öðrum löndum fyrir þeirra starf. Það tók breska björgunarkafbátinn fimm klukkustundir að klippa draslið utan af AS-28. Talið er að loftbirgðir bátsins hefði dugað áhöfninni tíu til tólf klukkustundir í viðbót, eftir það hefðu þeir kafnað. Það má því segja að hurð hafi skollið nærri hælum. Vladímír Pútín, forseti Rússlands, hefur ekkert sagt opinberlega um slysið eða björgunina. Leiðtogi stjórnarandstöðunnar segir hins vegar óskiljanlegt að Bretar skuli ráði yfir nauðsynlegri björgunartækni við þessar aðstæður en Rússar ekki.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×