Erlent

Milljónir án vatns

Milljónir íbúa Bagdad hafa ekki lengur aðgang að vatni eftir að eldur kom upp í stjórnstöð sem sér um að dæla vatni inn í borgina. Eldsvoðinn braust út aðeins degi eftir að borgarstjóri Bagdad kvartaði undan því að innviðir borgarinnar væru í lamasessi og hótaði að segja af sér ef ríkisstjórnin léti ekki til sín taka. Eldurinn braust út snemma morguns. Orsakir hans voru ekki ljósar, yfirmaður stjórnstöðvarinnar sagðist telja að vígamenn hefðu komið fyrir sprengju en talsmaður fjölþjóðlega herliðsins í Bagdad sagði að ekki væri um sprengjuárás að ræða. Alaa Mahmoud al-Timimi, borgarstjóri í Bagdad, hefur gagnrýnt harðlega hversu illa gengur að byggja upp innviði borgarinnar þar sem sex og hálf milljón íbúa þurfi ekki aðeins að þola mannrán og árásir vígamanna heldur líka verulegan skort á vatni, rafmagni og eldsneyti. Samkvæmt upplýsingum frá borgarstjórn Bagdad fá íbúar borgarinnar aðeins rúmlega helming þess vatns sem þeir þurfa dag hvern. Að auki er leiðslukerfið svo lélegt að sums staðar mengast vatnið af skólpi áður en það berst íbúum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×