Erlent

Óskar eftir endurnýjuðu umboði

Þýska stjórnin er fallin, ári áður en kjörtímabil hennar rennur út. Gerhard Schröder kanslari óskaði í gær eftir og fékk vantraust þingsins sem gerir honum kleift að efna til nýrra þingkosninga. Schröder hyggst óska eftir endurnýjuðu umboði til að fara með stjórn landsins, nokkuð sem gæti reynst honum erfitt þar sem mikillar óánægju gætir með slæmt atvinnuástand og staðnaðan efnahags. Þýsk lög heimila einungis að efnt sé til nýrra kosninga ef samþykkt er vantraust á sitjandi stjórn og því fór Schröder þess á leit við þingmenn að þeir samþykktu vantraust á stjórn sína. 296 þingmenn lýstu vantrausti á stjórnina en 151 vildi að hún sæti áfram. Schröder vísaði til slaks gengis Jafnaðarmannaflokks síns í fylkiskosningum sem rökstuðnings fyrir nýjum kosningum. Angela Merkel, leiðtogi Kristilegra demókrata, sagði Schröder ófæran um að stjórna Þýskalandi, mikið atvinnuleysi og lítill hagvöxtur um nokkurra ára skeið væru til marks um það.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×