Erlent

Átök á Gasa svæðinu

Átök brutust út á Gasa-ströndinni í dag þegar ísraelskar lögreglusveitir tókust á við róttæka gyðinga. Harðlínumenn búa sig undir átök vegna yfirvofandi brotthvarfs frá landnámssvæðunum. Lögreglusveitirnar réðust meðal annars með látum inn á hótel þar sem hægriöfgamenn úr röðum gyðinga höfðu hreiðrað um sig. Gyðingarnir láta ófriðlega vegna þess að þeim hefur verið gert að yfirgefa landnemabyggðir sínar, alls tuttugu og eina byggð á Gasa-ströndinni, þar sem leggja á þær niður. Róttækir þjóðernissinnar hafa undanfarið gert sitt ýtrasta til að valda uppnámi og koma í veg fyrir brotthvarf Ísraelshers af svæðinu. Ariel Sharon, forsætisráðherra, hefur að sama skapi heitið því að knésetja öfgamennina og láta þá ekki komast upp með að hnika áformum um brotthvarf. Það á að hefjast í byrjun ágústmánaðar og eru átök undanfarinna daga sögð einskonar æfing fyrir átökin sem óttast er að brjótist út þá.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×