Erlent

Hjónabönd samkynhneigðra lögleidd

Spænska þingið hefur samþykkt frumvarp um að leyfa hjónabönd samkynhneigðra. Frumvarpið, sem er hluti af félagslegum umbótum spænska sósíalistaflokksins, heimilar samkynhneigðum pörum einnig að ættleiða börn og erfa eigur hvors annars. Þegar kom í ljós að lögin yrðu samþykkt stóðu fylgjendur laganna í þinginu á fætur og fögnuðu með lófataki. Inni í þingsölum og fyrir utan þinghúsið höfðu stuðningsmenn úr röðum samkynhneigðra safnast saman og sendu þingmönnum fingurkossa. Margir telja merk tíðindi að Spánverjar séu svo framarlega í réttindamálum samkynhneigðra en landið hefur lengi verið talið íhaldssamt þar sem þorri íbúanna er kaþólskur. Holland og Belgía eru einu Evrópulöndin sem heimila samkynhneigðum að giftast samkvæmt landslögum. Andstæðingar lagana hafa haldið því fram að breytingarnar séu óábyrgar af hálfu Zapatero, forsætisráðherra Spánar. Hann muni með þessu fá hálfa þjóðina upp á móti sér. Kannanir sýna þó að einungis um þrjátíu prósent Spánverja séu á móti hjónaböndum samkynhneigðra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×