Sport

Guðmundur Mete til Keflavíkur

Á laugardaginn kemur knattspyrnumaðurinn Guðmundur Viðar Mete hingað til lands og skrifar undir samning við Keflavík út tímabilið. Guðmundur steig sín fyrstu skref með Austra á Eskifirði en fór út til Svíþjóðar 10 ára gamall. "Ég get ekki beðið eftir því að spila fótbolta á ný." segir Guðmundur, sem er spenntur fyrir því að sjá hvernig íslenska knattspyrnan er, hann hefur verið búsettur í Svíþjóð undanfarin fjórtán ár. "Ég hef náttúrlega aldrei spilað á Íslandi, ég er ákveðinn í að gera vel þar og svo er stefnan sett á að komast út aftur. Ég er búinn að vera meiddur af og til í eitt og hálft ár en hef verið í endurhæfingu undanfarinn mánuð." segir Guðmundur. Hann hefur síðastliðin þrjú ár verið hjá Norrköping en þar á undan var hann hjá Malmö þar sem hann fór í gegnum unglingastarfið. Ástæðan fyrir því að Keflavík varð nú fyrir valinu er sú að hann þekkir vel til þjálfarans Kristjáns Guðmundssonar og markvarðarins Ómars Jóhannssonar frá því að hann var hjá Malmö. "Þrátt fyrir að hafa aldrei spilað í íslenska boltanum þá hef ég fylgst ágætlega með honum í gegnum fótbolta.net og þá hef ég verið í sambandi við þá Kristján og Ómar. Þetta verður örugglega skemmtilegt." sagði Guðmundur, en hann er 24 ára. Vörn Keflavíkur hefur ekki verið nægilega traust það sem af er tímabili og vonir bundnar við það að með komu Guðmundar lagist hún. Hann á ellefu leiki að baki fyrir U-21 landsliðið og var einnig með U-19 og U-17. Kristján Guðmundsson lýsir honum sem sterkum leikmanni, góðum skallamanni og fínum leiðtoga. "Hann er einmitt týpan sem okkur hefur vantað í vörnina." sagði Kristján.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×