Erlent

Sautján hermanna saknað

Óvinveitt skot er talið hafa valdið því að bandarísk þyrla hrapaði til jarðar í austurhluta Afganistan, ef marka má fréttir frá bandaríska hernum. Sautján hermenn voru um borð í þyrlunni sem var að flytja þá yfir mikla fjallgarða til að berjast gegn meðlimum al-Kaída samtakanna. Ekkert er vitað um afdrif hermannanna. Ýmsir hafa miklar áhyggjur af þessu atviki vegna þess að aldrei fyrr hefur innfæddum tekist að skjóta niður flugvél frá hernámsliðinu. Talað er um að þegar Afgönum fór að takast að skjóta niður sovéskar flugvélar í stríðinu milli þjóðanna á níunda áratugnum hafi fyrst farið að síga á ógæfuhliðina hjá Sovétmönnum. Róstursamt hefur verið í Afganistan undanfarið og hernámsliðið haft í vök að verjast gegn uppreisnarmönnum. Yfirvöldum í Afganistan og yfirmönnum bandaríska hersins ber saman um að líklegt sé að baráttan komi til með að stigmagnast fram að þingkosningum sem fyrirhugaðar eru í september.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×