Sport

Sætur sigur Keflvíkinga

Framarar byrjuðu af meiri krafti í leiknum og náðu verðskuldað forystunni á 27.mínútu þegar Andri Fannar Ottóson sendi á Viði Leifsson sem skallaði að marki en Ómar Jóhannsson varði, það vildi þó ekki betur en svo að hann varði knöttinn í varnarmanninn Guðjón Árna Antoníusson og þaðan fór hann inn.  Fimm mínútum fyrir leikhlé gerði Kristján Hauksson síðan slæm mistök í vörninni, Stefán Örn Arnarson slapp einn í gegn og kláraði vel. Staðan því jöfn í leikhléi. Keflvíkingar voru þó ekki að spila vel en í síðari hálfleik hresstist verulega yfir þeim á meðan Framarar fóru niður á lægra plan. Það var ekki nema hálf mínúta liðin af seinni hálfleik þegar gestirnir tóku forystuna en þá barst boltinn á Hólmar Örn Rúnarsson sem var í upplögðu skotfæri sem hann nýtti vel. Hann átti fast skot sem hafnaði í bláhorninu, óverjandi fyrir Gunnar Sigurðsson.Aðeins tveimur mínútum síðar munaði litlu að Ingvar Ólason næði að jafna metinn en hann skallaði þá í stöngina. Tók síðan við kafli i leiknum þar sem fátt gerðist og lítið var um fína drætti, Frömurum gekk illa að skapa sér færi og spilamennska liðsins gekk ekki upp.Á 89.mínútu kom síðan fallegasta mark leiksins en það skoraði Hörður Sveinsson með skalla eftir frábæra fyrirgjöf frá Guðmundi Steinarssyni. Það var ekki fyrr en þá sem Framarar fóru að spila af krafti og í viðbótartímaminnkaði Ingvar Ólason muninn með skalla eftir fyrirgjöf frá Víði en það kom of seint og Keflvíkingar fögnuðu innilega í leikslok. "Það var frábært að fá öll stigin í þessum leik, sérstaklega miðað við spilamennskuna hjá okkur í fyrri hálfleik, við vorum ferlega slakir þá og spiluðum hreint út sagt illa. Í hálfleik áréttaði ég nokkra hluti sem við lögðum upp með og strákarnir komu grimmir til leiks í seinni hálfleik. Ég var sáttur með spilamennskuna þó við hefðum mátt ógna markinu oftar, við gerðum það þó nógu oft til að sigra." sagði Kristján Guðmundsson, þjálfari Keflvíkinga, eftir leikinn.Ólafur Kristjánsson, þjálfari Fram, var ekki alveg jafn hress. "Við fengum aragrúa af færum í fyrri hálfleik sem við nýtum ekki og mætum síðan í seinni hálfleikinn með brækurnar á hælunum og fáum strax á okkur mark. Það voru of margir hlutir að klikka, við erum komnir í erfiða stöðu en alls ekki ómögulega. Við þurfum að spila heilan vel í heilan leik næst."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×