Erlent

Kosningabaráttu lokið í Íran

Líflegri forsetakosningabaráttu lauk í nótt í Íran. Ungt fólk var áberandi á kosningasamkundum þrátt fyrir lítinn stjórnmálaáhuga en margir sögðust þar einungis til að skemmta sér. Kannanir benda til þess að Akbar Hashemi Rafsanjani, sem var forseti Írans á árunum 1987-1997, njóti mesta fylgis af frambjóðendunum sjö en hann þykir hófsamur klerkur. Á hæla honum fylgja umbótasinni og harðlínumaður. Alls reyndu um þúsund manns að bjóða sig fram, en klerkaráðið hafnaði flestum þeirra. Talið er öruggt að aðra umferð kosninga þurfi til að einhver frambjóðendanna hljóti nægilega mikið fylgi til að hafa sigur. Frambjóðendur hafa ekki síst reynt að höfða til ungs fólks enda er meira en helmingur Írana undir 25 ára aldri. Þeir hafa meðal annars lofað atvinnusköpun og félagslegu frelsi. Ungt fólk hefur einnig verið áberandi á kosningafundum og samkomum þó að kannanir sýni að sáralítill áhugi sé á kosningunum meðal ungs fólks. Kosningasamkundurnar gefa ungu fólki hins vegar tækifæri til að skemmta sér fram eftir nóttu án afskipta lögreglu og þar geta kynin skemmt sér saman óáreitt. Ungir viðmælendur erlendra fréttastofa kveðast margir ætla að sniðganga kosningarnar enda jafngildi þátttaka stuðningi við íslamska lýðveldið. Úrslit forsetakosninganna skipta þó ekki miklu máli um á framtíðarstefnu landsins. Völdin eru eftir sem áður að mestu í höndum varðaráðsins sem skipað er harðlínumönnum. Kosningaþátttaka getur hins vegar gefið hugmynd um pólitíska stemmningu í landinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×