Erlent

Enn stál í stál í fjármálum ESB

Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, sagði í gær að það yrði erfitt að leysa þann ágreining sem ríkir milli ráðamanna Evrópusambandsríkjanna um fjárhagsramma sambandsins næstu árin. Kallaði Blair eftir víðtækri umræðu um framtíðartilhögun fjármögnunar sambandsins. Blair átti viðræður við Jacques Chirac, forseta Frakklands, í París í gær og dró enga dul á það á blaðamannafundi að í viðræðunum hefði komið skýrt í ljós að ágreiningurinn væri djúpstæður. Hagsmunaárekstrar Frakka og Breta í þessu sambandi hafa komið mjög skýrt fram í aðdraganda leiðtogafundar ESB sem hefst í Brussel á morgun, en á honum stóð til að ganga frá samkomulagi um fjárlagaramma ESB fyrir árin 2007-2013. Blair hefur lagt áherslu á að ekki komi til greina fyrir Breta að hreyft verði við milljarðaendurgreiðslum sem þeir fá úr sjóðum ESB og Chirac hefur á móti ekki tekið í mál að hreyft verði við landbúnaðarniðurgreiðslunum sem franskir bændur njóta einkum góðs af.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×