Erlent

Tók son sinn í gíslingu

Maður ruddist inn á sjúkrahús í Blekinge í Karlskrona-héraði í Svíþjóð í gær og tók son sinn í gíslingu. Hann hótaði að kveikja í sér og syninum. Maðurinn er 33 ára gamall Aseri en í nóvember síðastliðnum ákváðu sænsk stjórnvöld að vísa honum og fjölskyldu hans úr landi og aftur til Aserbaídsjan. Sá úrskurður var staðfestur í þarsíðustu viku. Talið er að í örvæntingu sinni vegna úrskurðarins hafi maðurinn ákveðið að grípa til örþrifaráða. Hann óð því inn á sjúkrahúsið í Blekinge í gærmorgun þar sem fimmtán ára gamall sonur hans er vistaður. Í farteskinu hafði maðurinn tvær fullar flöskur af glærum vökva sem talinn er vera bensín eða eldsneyti af öðru tagi að því er dagblaðið Dagens Nyheter hermir. Maðurinn fór inn á herbergi sonar síns með flöskurnar, læsti sig þar inni og hótaði að kveikja í. Talsverð skelfing greip um sig á sjúkrahúsinu vegna þessarar uppákomu. Lögregla og starfsfólk hófust þegar handa við að rýma þá álmu hússins sem feðgarnir halda sig í og síðdegis var svo túlkur fenginn á vettvang til að tala um fyrir manninum. Lyktir þessa dapurlega máls voru ekki ljósar þegar blaðið fór í prentun í gærkvöld.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×