Erlent

Líklega dómur í vikunni

Rússneski auðkýfingurinn Míkhaíl Khodorkovskí, mun líklega komast að því í þessari viku hversu lengi hann mun fá að dúsa í fangelsi. Dómarar hafa nú þegar fundið Khodorkovskí sekan um skattsvik þrátt fyrir að réttarhöldum sé ekki lokið. Vinnubrögð þessi og málið í heild sinni hafa gert það að verkum að erlendir fjárfestar hafa margir hverjir fælst frá landinu og frestað samningum við rússnesk fyrirtæki en fjárfestum finnst óöryggið í rússnesku viðskiptalífi einfaldlega of mikið, ríkið stundi það enn að grípa inn í þegar því hentar og það gangi ekki. Þá hefur ímynd Vladímírs Pútíns Rússlandsforseta einnig beðið hnekki á Vesturlöndum vegna málsins og segja sérfræðingar mál þetta kunni að hafa gríðarlega neikvæð áhrif á efnahag landsins eftir annars ágætan hagvöxt undanfarið. Khodorkovskí gæti átt yfir höfði sér allt að tíu ára fangelsi og búast margir við að hann fái þann dóm. Verið sé að kenna ákveðna lexíu, Khodorkovskí hafi ekki átt að skipta sér af stjórnmálum og þetta kenni öðrum mönnum í svipaðri stöðu og Khodorkovskí var í að svona fari fyrir þeim fari þeir ekki að settum reglum. Hinn 41 árs ára gamli Khodorkovskí var einn ríkasti maður Rússlands fyrir þetta mál en hann stofnaði olíufyrirtækið Yukos á sínum tíma sem nú er á barmi gjaldþrots vegna málsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×