Erlent

Litblindir hlusta á litrófið

Litblindir geta hlustað á litrófið með hjálp tækis, sem gerir þeim kleift að greina í sundur mismunandi liti með hljóðmerkjum. Litblindur listmálari er sá fyrsti sem notar tækið og má ímynda sér að verkin fái aukna dýpt og verði aðgengilegri þeim sem skynja liti. Breski listamaðurinn Neil Harbisson fæddist litblindur en hefur tekið tækið, sem ber heitið Eyeborg, í sína þjónustu. Smámyndavél sendir upplýsingar í tækið en það notar hljóðbylgjur til að aðgreina litina. Hver litur fær sinn tón. Harbisson hefur eingöngu notað svartan lit í verk sín en nú verður breyting á. Hann segir að það skipti ekki öllu hvernig málverkið líti út heldur hvernig það hljómi. Það sé því eins og hans sé að semja tónverk með litum og þetta sé tónlist á striga. Adam Montandon, hönnuður tækisins, vinnur nú að annari útgáfu þess og smærri til að auðvelda litblindum lífið. Hann segir að þegar hann hafi smíðað tækið hafi honum ekki dottið í hug hvernig það gæti breytt lífi fólks. Hann hafi bara búist við að tækið yrði leikfang. Nú sé Harbisson með það allan sólarhringinn og það sé orðið hluti af persónuleika hans. Og það er ekki bara við listsköpun sem Eyeborg nýtist Harbisson. Hann segir að hann hafi ekki vitað að appelsínusafi væri appelsínusafi fyrr en hann hafi smakkað hann og ef hann hafi ætlað að hitta einhvern sem sagðist vera á bláum bíl hafi hann ekki getað þekkt bílinn. Þess má svo geta að Harbisson segir rauðan vera eftirlætis lit sinn og þá vegna þess víbrandi hljóðs sem hann gefur frá sér.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×