Erlent

Niður úr krana eftir rúma tvo daga

Bandarískur ógæfumaður um fertugt flúði lögregluna upp í 50 metra háan byggingakrana. Það tók meira en tvo sólarhringa að ná honum niður. Það var á miðvikudagskvöld að Carl Edward Roland kleif kranann sem er fyrir ofan fjölfarið hverfi í borginni Atlanta. Fyrr um daginn hafði lögregla gefið út handtökuskipun á hendur honum vegna gruns um að hann hefði myrt fyrrverandi kærustu sína sökum afbrýði. Þar til í mars síðastliðnum var hann sölumaður í tölvuverslun en þá sagði hann upp og var úrskurðaður gjaldþrota. Þá skuldaði skattinum og kreditkortafyrirtækjum á aðra milljón íslenskra króna. Þessi raunasaga Rolands og flótti hans upp í kranann vakti mikla athygli, umferðartafir sköpuðust og áttu eigendur veitingastaða í nágrenni kranans í mesta basli með að anna þeim fjölda viðskipavina sem þusti að til að fylgjast með Roland í krananum og aðgerðum lögreglunnar yfir máltíð. Roland var þó án matar og drykkjar í þær 56 klukkustundir sem liðu þar til lögreglu tókst að yfirbuga hann með rafmagnsbyssu. Þegar hann hafði fast land undir fótum var honum ekið beint í steininn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×