Erlent

Ástandið betra en ekki eðlilegt

Ástandið í Darfur hefur batnað en stjórnvöld á svæðinu þurfa að gera meira til að bæta aðstöðu þeirra hundruð þúsunda einstaklinga sem hafa flúið ofbeldi í héraðinu. Þetta sagði Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, þegar hann kom í dagslanga heimsókn til Darfurhéraðs í Súdan í gær. Annan ræddi við Al-Haj Atalmannan Idris héraðsstjóra sem sagði honum hvernig reynt væri að bæta samskipti þjóðflokkanna sem byggja Darfur. Þannig væri leitast leiða við að gera svæðið friðvænlegra og líf íbúanna betra en áður. Annan tók undir með héraðsstjóranum að ástandið hefði batnað en sagði þörf á að gera meira svo ástandið gæti talist eðlilegt. "Við ræddum þörfina á að gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma á friði í Darfur og tryggja að bændur geti snúið aftur til jarða sinna, gróðursett, ræktað og uppskorið. Annars horfum við fram á neyðaraðstoð sem á eftir að reyna mjög á getu alþjóðasamfélagsins til að bregðast við," sagði Annan að fundinum loknum. Síðasta fimmtudag var haldin ráðstefna í Addis Ababa, höfuðborg Eþíópíu, og var markmiðið hennar að safna fé til friðargæslu í héraðinu. Þrátt fyrir eindregin bænarorð Kofi Annan, aðalritara Sameinuðu Þjóðanna, söfnuðust aðeins um 13 milljarðar íslenskra króna. Þar af komu 8,5 milljarðar frá Kanada. Samtök Afríkuríkja töldu að alls þyrftu að safnast tæpir 30 milljarðar, en samtökin sjá um friðargæsluna í héraðinu. Charles Snyder, fulltrúi Bandaríkjanna á ráðstefnunni, sagði að til að ljúka átökunum þyrfti Atlantshafsbandalagið að styðja við bakið á samtökunum. Hann taldi að þau hefðu í raun verið að leita eftir utanaðkomandi stuðningi. Framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins sagðist bandalagið á fundinum tilbúið að veita alla þá aðstoð sem óskað væri eftir. "En Samtök afríkuríkja verða að halda um stýrið."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×