Erlent

Kosning um stjórnarskrá hafin

Þjóðaratkvæðargreiðsla um stjórnarskrá Evrópusambandsins hófst í dag á eyjum víða um heim sem heyra undir Frakkland en kosið verður í Frakklandi á morgun. Talið er líklegast að Frakkar hafni stjórnarskránni en síðustu skoðanakannanir, sem gerðar voru í gær, hafa verið nokkuð misvísandi. Í einni könnun hugðust 56 prósent þjóðarinnar hafna stjórnarskránni en í annarri reyndist 52 prósent þjóðarinnar andsnúin henni. Fylgjendur stjórnarskrárinnar eygja því eilitla von þar sem nokkur fjöldi er enn óákveðinn. Deilt er um hver áhrifin verði ef Frakkar hafni stjórnarskránni. Margir stuðningsmenn hennar segja það boða endalok stjórnarskrárinnar og veikingu Evrópusambandsins en andstæðingar stjórnarskrárinnar segja að einungis þurfi þá að endurskoða hana og bæta. Markmið stjórnarskrárinnar er að einfalda ákvarðanatöku innan ESB og þurfa öll aðildarríki að samþykkja hana til þess að hún taki gildi. Nú þegar hafa níu þjóðir af 25 samþykkt hana, Þjóðverjar nú síðast í gær.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×