Erlent

Vantar tvöfalt meira fé í Darfur

Nærri þrjú hundruð milljónum dollara hefur verið lofað til hjálparstarfa í Darfur-héraði í Súdan en það er aðeins helmingur þess sem þarf til að forða milljónum frá því að svelta. Enn herja skæruliðasveitir á óbreytta íbúa héraðsins. Það er liðið rúmt ár frá því að hörmungarnar í Darfur komust í hámæli og síðan þá hefur verið unnið að því að finna einhvers konar lausn. Friðargæsluliðar á vegum Afríkusambandsins hafa verið við störf en þeir skipta aðeins fáeinum þúsundum, sem er eins og dropi í hafið á svæði sem er stærra en Frakkland. Afríkusambandið vill fjölga friðargæsluliðunum og hefur beðið Vesturlönd um aðstoð sem hefur gengið illa að fá. Í gær og morgun var lofað á þriðja hundrað milljónum dollara alls sem er þó rétt um helmingur þess sem þarf. Hluta fjárins hafði í raun verið lofað áður svo að upphæðin er líkast nærri 200 milljónum. Leitað hefur verið liðsinnis NATO við að flytja friðargæslusveitir og birgðir á svæðið. Því hefur verið vel vekið en engin ákvörðun liggur þó enn fyrir. Á meðan berast fregnir af linnulausum aðgerðum súdanskra hermanna og janjaweed-skæruliðasveita tengdum hernum. Hermt er að óbreyttir borgarar verði fyrir barðinu á þeim en nú þegar hafa á milli 200 og 300 þúsund manns týnt lífi í Darfur. Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, segir víst að þeir skipti milljónum sem ekki muni lifa af komi ógnaröldin í veg fyrir að fólk geti plantað fræjum sér til nauðþurfta. Bregðist uppskera næsta árs sé víst að neyðaraðstoð þurfi til að koma í veg fyrir að milljónir manna í Darfur-héraði farist úr hungri.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×