Erlent

Ávarps Chiracs vakti litla lukku

Jacques Chirac, forseti Frakklands, gerði í gærkvöldi örvæntingafulla tilraun til að sannfæra landa sína um að styðja stjórnarskrá Evrópusambandsins. Ávarpið þótti ömurlegt. Heldur syrtir hins vegar í álinn í Frakklandi þar sem hlutfall þeirra sem hyggjast greiða atkvæði gegn stjórnarskrá Evrópusambandsins hefur hækkað um fimm prósentustig í þessum mánuði. Jacques Chirac hélt sjónvarpsávarp í gærkvöldi í von um að telja kjósendum hughvarf en í ljósi þess að afstaða kjósenda litast ekki síst af vilja til að refsa Chiracs verður að telja að hann hafi talað fyrir heldur daufum eyrum. Leiðarahöfundur dagblaðsins La Liberation segir það hafa verið ömurlegt að horfa upp á Chirac reyna að bjarga sér frá klúðrinu sem hann beri sjálfur ábyrgð á. Hafni Frakkar stjórnarskránni er hún andvana fædd en það þýðir ekki að stjórnmálamenn um alla álfuna leiti ekki leiða til að bjarga henni. Chirac hvetur meðal annars aðrar Evrópuþjóðir til að greiða samt sem áður atkvæði um stjórnarskrána enda vill hann ekki að litið verði svo á að Frakkar einir stöðvi framgöngu málsins. Það setur bresku stjórnina í klípu því að Tony Blair vonaðist til þess að höfnun í Frakklandi þýddi að Bretar þyrftu ekki að kljást við stjórnarskránna og efna til þjóðaratkvæðagreiðslu. Efri deild þýska þingsins samþykkti hins vegar í morgun stjórnarskrána eins og búist hafði verið við. Allir meginstjórnmálaflokkar Þýskalands höfðu lýst stuðningi við stjórnarskránna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×