Erlent

Ástralar reiðir vegna dóms á Balí

Mikil reiði ríkir í Ástralíu í kjölfar dóms á Balí yfir áströlsku konunni Schapelle Corby sem í morgun var dæmd í tuttugu ára fangelsi fyrir að reyna að smygla liðlega fjórum kílóum af marijúana til eyjarinnar. Corby heldur fram sakleysi sínu og að fíkniefnunum hafi verið komið fyrir í farangri hennar en ekki var lagður trúnaður á þá sögu. Sýnt var beint frá dómsuppkvaðningunni í Ástralíu og vakti dómurinn upp gríðarlega reiði þar í landi. Corby hefði getað fengið dauðadóm þar sem um 4,1 kíló var að ræða og saksóknarar fóru fram á lífstíðarfangelsi. Segja því sumir að Corby hafi sloppið ágætlega og mun betur en heimamenn hefðu gert. Yfirvöld í Ástralíu hafa farið fram á að Corby fái að afplána dóminn í heimalandi sínu en dómstóllinn segir það ekki koma til greina, með þessu sé verið að setja fordæmi og vonandi hugsi fólk sig tvisvar um áður en það flytji eiturlyf inn í landið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×