Erlent

Palestínumönnum heitið aðstoð

George W. Bush Bandaríkjaforseti og Mahmoud Abbas, forseti Palestínu, funduðu í gær í Hvíta húsinu en þetta er í fyrsta sinn sem Abbas sækir Bandaríkjaforseta heim. Bush fagnaði þeim skrefum sem Abbas hefur stigið í lýðræðisátt heima fyrir. "Þú hefur markað nýtt upphaf á erfiðri vegferð sem krefst hugrekkis og forystu á hverjum degi," sagði Bush við Palestínuleiðtogann. Abbas hét því að fylgja friðarferlinu en sagði jafnframt: "Tíminn er að verða okkar stærsti óvinur. Við verðum að ljúka átökunum áður en það er of seint." Ríkisstjórn Bush mun styrkja Palestínumenn beint um rúma þrjá milljarða króna og á féð að renna í húsnæðisaðstoð á Gaza-svæðinu. Talið er að fjárveitingin muni styrkja stöðu talsvert Abbas fyrir komandi kosningar í Palestínu sem verða að líkindum haldnar með haustinu. Bandaríkjaþing hefur nú þegar samþykkt tæplega átján milljarða króna fjárveitingu til Palestínumanna á þessu ári og er að íhuga að styrkja þá um tæpa tíu milljarða króna til viðbótar á því næsta. Þessi nýja styrkveiting er hluti af þeirri aðstoð.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×