Erlent

Leitin að stríðsglæpamönnum hert

Aukin harka hefur færst í leitina að stríðsglæpamönnum í Bosníu en nú styttist í að tíu ár séu liðin frá fjöldamorðunum í Srebrenica. Í morgun réðust hermenn NATO inn í íbúð sonar Radovans Karadzic, leiðtoga Serba í stríðinu í Bosníu, en í gær réðust þeir inn á heimili eiginkonu Karadzic. Hvorki fannst tangur né tetur af honum sjálfum en talsmaður NATO segir tilganginn fyrst og fremst að auka þrýstinginn á Karadzic og fylgismenn hans. Undanfarið hefur verið lögð meiri áhersla á að fanga Karadzic og harkan í leitinni að honum hefur aukist. Almennt er talið í Sarajevo að yfirvöld í serbneska lýðveldinu Serbska, sem nær yfir hluta Bosníu, viti hvar Karadzic er að finna og hylmi yfir með honum. Þó að á þriðja hundrað hermanna NATO þar hafi þann starfa einan að finna stríðsglæpamenn er talið næsta útilokað að þeir finni Karadzic, enda herma fregnir að hann hafi margoft rétt náð að koma sér undan sveitum sem eru á hælum hans. Því hefur pólitískur þrýstingur verið stóraukinn. Í Bosníu er almennur áhugi fyrir því að ganga í Evrópusambandið og helst í NATO einnig, en yfirvöldum hefur verið gerð grein fyrir því að slíkt sé með öllu útilokað á meðan níu serbneskir stríðsglæpamenn og einn króatískur leiki lausum hala. Efstur á þeim lista er Karadzic sem hefur verið ákærður fyrir aðild að morðinu á 7400 karlmönnum og drengjum í Srebrenica þann 11. júlí 1995. Radko Mladic, sem stýrði hersveitum Bosníu-Serba í stríðinu, er annar stríðsglæpamaður sem leitað er en hann er talinn í felum í Serbíu og svo virðist sem stjórnvöld þar geri lítið sem ekkert til að reyna að finna hann.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×