Erlent

Þingið gengur gegn vilja Bush

Fulltrúadeild Bandaríkjaþings hefur samþykkt að afnema takmarkanir á opinberum fjárframlögum til stofnfrumurannsókna. George W. Bush forseti hótar að beita neitunarvaldi sínu verði frumvarpið að lögum í meðförum öldungadeildarinnar. Umræðurnar voru heitar í fulltrúadeildinni í fyrradag um hvort afnema ætti þær takmarkanir sem Bush forseti setti árið 2001 á opinber fjárframlög til rannsókna á stofnfrumum úr fósturvísum. Þótt þingmennirnir hefðu venju samkvæmt skipst í tvær fylkingar þá var skiptingin þverpólitísk. Þegar yfir lauk höfðu fimmtíu þingmenn úr röðum repúblikana snúist á sveif með þorra demókrata og frumvarpið var því samþykkt með 238 atkvæðum gegn 194. Deilan snýst um hvort réttlætanlegt sé að nota vísi að mannslífi til að þróa lækningar við alvarlegum sjúkdómum á borð við Parkinsons-veiki og sykursýki. Því voru umræðurnar í þinginu óvenju persónulegar þar sem þingmenn létu óspart í ljós trúarskoðanir sínar og fjölskylduaðstæður. "Í fyrsta sinn í sögu þjóðar okkar á að nota peninga skattborgarana til að eyða saklausum mannslífum," sagði Henry J. Hyde, repúblikani frá Illinois. Joe Barton, repúblikani frá Texas, kvaðst hins vegar styðja frumvarpið þar sem faðir hans hefði dáið úr sykursýki og bróðir úr lifrarsjúkdómi. 290 atkvæði fulltrúadeildarþingmanna þarf til að forseti geti ekki beitt neitunarvaldi sínu en George W. Bush hefur lýst því yfir að hann muni gera það nái frumvarpið fram að ganga. Þá skoðun lét hann í ljós á blaðamannafundi í fyrradag umkringdur börnum sem höfðu verið ættleidd þegar þau voru enn á fósturstigi. Fastlega er búist við að frumvarpið nái fram að ganga í öldungadeildinni en skoðanakannanir benda auk þess til að þorri almennings sé hlynntur stofnfrumurannsóknum. Það er ekki síst stuðningur Nancy Reagan við rannsóknirnar sem hefur aflað málinu fylgis hjá íhaldssamari hluta þjóðarinnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×