Erlent

ETA enn við sama heygarðshornið

Aðskilnaðarsamtök Baska, ETA, sprengdu öfluga bílsprengju í Madríd í gær. Átján særðust í tilræðinu en enginn mjög alvarlega. Þetta er sjötta árás ETA síðan forsætisráðherra Spánar sagðist reiðubúinn til að hefja viðræður við samtökin að vissum skilyrðum uppfylltum. Bílsprengjan sprakk í verkamannahverfi í norðausturhluta höfuðborgarinnar snemma í gærmorgun. Áður hafði þó baskneska dagblaðinu Gara borist tilkynning um að tilræði væri í uppsiglingu og því gafst lögreglu svigrúm til að girða svæðið af. Þrátt fyrir viðvörunina meiddust átján manns í tilræðinu. Öryggisvörður á nálægri bílasölu slasaðist sýnu mest enda þurfti að flytja hann á sjúkrahús. Jose Luis Rodriguez Zapatero forsætisráðherra fordæmdi tilræðið í spænska þinginu í gærmorgun og sagði að "eini valkostur ETA væri að leggja niður vopn sín". Fyrr í þessum mánuði lýsti Zapatero því yfir að hann væri reiðubúinn til að hefja viðræður við ETA en aðeins ef samtökin afvopnuðust og létu af ofbeldisverkum. Síðan þá hefur ETA staðið fyrir sex sprengjutilræðum. 800 manns hafa fallið í árásum ETA síðan 1960 en frá því í maí 2003 hefur enginn beðið bana af þeirra völdum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×