Erlent

Lyf gegn ótímabæru sáðláti

Vísindamenn við háskólann í Minnesota í Bandaríkjunum hafa þróað lyf gegn ótímabæru sáðláti karla. Á ráðstefnu þvarfæraskurðlækna í San Antonio í Texas, þar sem nýja lyfið var kynnt, var greint frá því að það geti hjálpað mönnum sem eiga við ótímabært sáðlát að stríða en með því að taka lyfið geta karlmenn seinkað því töluvert að fá fullnægingu. Prófanir á lyfinu, sem kallast dapoxetín, hafa reynst vel og á ráðstefnunni ytra fullyrtu makar þeirra sem tóku þátt í prófununum að ástarlífið væri nú mun betra en áður. Við rannsóknir var einn hópur karla látinn taka inn 30 og 60 milligröm af lyfinu og annar hópur fékk lyfleysu. Í ljós kom að tíminn sem leið þar til karlarnir fengu fullnægingu varð allt að fjórfalt lengri hjá þeim sem tóku lyfið en hjá þeim sem tóku lyfleysuna. Doktor Jon Pryor, forstöðumaður þvagfæraskurðlækningadeildar háskólans í Minnesota sem fór fyrir rannsókninni, segir að ótímabært sáðlát sé algengt vandamál sem á milli 10 og 30 prósent allra karla finni fyrir. Hann segir miklar vonir bundnar við lyfið sem sé hið fyrsta sem raunverulega virki gegn kvillanum. Áhrifa dapoxetíns verður fljótt vart, að sögn Pryors, og eru aukaverkanir litlar. Lyfið er nú í þróun hjá lyfjafyrirtæki í Kaliforníu og er stefnt að því að setja það á markað fljótlega, verði það samþykkt af bandaríska lyfjaeftirlitinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×