Erlent

Frekari andspyrna barin niður

Stjórnarherinn í Úsbekistan hertók síðastliðna nótt smáþorpið Korasuv og barði niður alla andspyrnu þar. Ekki er vitað um mannfall. Eftir blóðbaðið í borginni Andijan í síðustu viku, þar sem hundruð manna féllu í valinn, flúðu margir íbúanna til nálægra þorpa eða borga. Margir flúðu til þorpsins Korasuv og hétu því að halda baráttunni áfram. Síðastliðna nótt komu hins vegar hersveitir stjórnarinnar á vettvang og tóku völdin í þorpinu. Mótstaða var lítil sem engin og ekki er vitað um mannfall. Nokkrir þeirra sem særðust í Andijan komust yfir landamærin til nágrannaríkisins Kirgisistans og eru þar á sjúkrahúsi. Þeir segja að hermennirnir hafi skotið þá eins og hunda. Brynvarin ökutæki og hermenn hafi birst á torginu í Andijan og hafi tekið að skjóta á friðsamt fólk af handahófi. Á torginu hafi verið börn, gamalmenni og konur en þau hafi mörg verið drepin. Ríkisstjórn Úsbekistans neitar því að hermenn hafi skotið á óbreytta borgara en segir að 170 manns hafi fallið í bardögum við skæruliða. Sjónarvottar og mannréttindasamtök segja hins vegar að stjórnarherinn hafi skotið 500 manns, flesta óbreytta borgara.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×