Erlent

Kjarnorka gegn gróðurhúsaáhrifum

Kjarnorka heyrist æ oftar nefnd sem góður kostur í baráttunni við gróðurhúsaáhrifin. Umhverfissinnum er ekki skemmt. Kjarnorka er mjög hreinn orkugjafi til rafmagnsframleiðslu, að minnsta kosti meðan ekkert fer úrskeiðis. Olía og kol menga mikið auk þess sem verð á olíu fer sífellt hækkandi. Margar þjóðir eru því farnar að hyggja að kjarnorku til þess að mæta sívaxandi orkuþörf og draga úr mengun. Kínverjar hafa þegar tilkynnt að þeir hyggist gera stórátak í að reisa kjarnorkuver sem eiga að taka við af kolakyntum orkuverum til rafmagnsframleiðslu. Ríki í Suður-Ameríku vilja fara sömu leið, þar á meðal Brasilía. Bandaríkjamenn segja að kjarnorka sé bæði hrein og örugg og myndi losa þá undan því oki að þurfa að reiða sig á olíulindir í Miðausturlöndum. Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, sagði í síðustu viku að ekki væri hægt að ræða um gróðurhúsaáhrifin án þess að huga að möguleikanum á að notast við kjarnorku. Eins og nærri má geta eru umhverfissinnar ekki hrifnir af þessari umræðu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×