Erlent

Venjulegir Danir gera út á vændi

Millistéttarfólk í Danmörku, sem aldrei hefur komist í kast við lögin, er í auknum mæli farið að flytja erlendar konur til Danmerkur og gera þær út sem vændiskonur. Segja má að kínverska og albanska mafían fái liðsauka frá herra og frú Jensen, eða dönskum Jónum og Gunnum, sem virðast líta svo á að hægt sé að ná í skjótfenginn gróða með vændisþjónustu. Mafían hefur uppi á konunum, Danirnir koma þeim til landsins og gera þær út. Þetta eru Danir í góðri þjóðfélagsstöðu og hafa hvorki tengst eða tekið þátt í glæpsamlegu athæfi áður. Yfirmaður hjá dönsku rannsóknarlögreglunni, Troels Jörgensen, segir að þeir hafi orðið varir við mikla aukningu, sérstaklega á síðasta ári. Í viðtali við Extra Bladet vísar hann í dóm sem nýlega féll á Jótlandi yfir eldri hjónum. Hjónin, sem höfðu verið gift í 25 ár, ráku nokkur vændishús. Þegar lögreglan komst á snoðir um reksturinn var lagt hald á tugi milljóna íslenskra króna sem þau höfðu haft upp úr krafsinu. Forstöðumaður danskra samtaka sem berjast gegn mansali, Trine Lund-Jensen, segir þetta hægðarleik og tekur dæmi af Dönum sem keyra á Volvonum til landamæra Þýskalands. Þar greiði þeir um hálfa milljón íslenkra króna fyrir konu frá Austur-Evrópu eða Afríku. Ef hún er deyfð má auðveldlega keyra með hana til Danmerkur, og jafnvel þrjár eða fjórar til viðbótar, segir Jensen. Eigi Danirnir góðan kjallara þar sem hægt er að geyma konurnar, og aðgang að Netinu til að auglýsa, þá komi kúnnarnir og viðkomandi sé í bullandi bisness.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×