Erlent

Herinn hafi orðið að skjóta

Sjónarvottar og fulltrúi mannréttindasamtaka í Úsbekistan segja að um fimm hundruð manns hafi fallið í skotárás hersins í borginni Andian, í gær. Forseti landsins segir að herinn hafi orðið að skjóta á mannfjöldann til að bæla niður uppreisn. Engar áreiðanlegar fréttir hafa borist af mannfalli í Úsbeskistan eða  myndir enda hefur erlendum fréttamönnum verið vísað frá Andijan. Islam Karimov, forseti Úsbekistans, segir að hernum hafi verið nauðugur einn kostur að hefja skothríð til þess að berja niður uppreisn í Andijan. Hann sagði að tíu hermenn hefðu fallið og miklu fleiri óbreyttir borgarar en nefndi enga tölu um þá. Undanfarna átján mánuði hafa leiðtogar Georgíu, Úkraínu og Kirgisistan hrökklast frá völdum í friðsamlegum byltingum. Islam Karimov er hins vegar einn af verstu harðstjórunum á þessu svæði og hann er greinilega tilbúinn að beita hernum til þess að halda völdum. Karimov hefur verið einráður í Úsbekistan frá því 1989. Mannréttindasamtök segja að að minnsta kosti sex þúsund pólitískir fangar séu í fangelsum í Úsbekistan og pyntingar séu þar algengar. Evrópusambandið hefur fordæmt Karimov forseta, fyrir harðstjórn hans en Rússar segjast styðja hann. Þegar innrásin var gerð í Afganistan keypti Karimov sér velvild á Vesturlöndum með því að leyfa bandarískum herflugvélum að nota flugvelli í landinu, en Úsbekistan á landamæri að Afganistan. Úsbekistan er á stærð við Svíþjóð. Landið var áður eitt af lýðveldum Sovétríkjanna. Íbúar þar eru um 26 milljónir. Úsbekistan er nokkuð stöndugt ríki miðað við það sem gerist í þessum heimshluta. Þar eru miklar birgðir af olíu og gasi í jörðu og mikil gull- og baðmullarframleiðsla. Lífsins gæðum er hins vegar mjög misskipt og sár fátækt er í mörgum héruðum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×