Erlent

Fórst í bruna í Stokkhólmi

Hin heimsþekkta sænska söng- og leikkona Monica Zetterlund fórst í eldsvoða í Stokkhólmi í fyrradag. Eldur kom upp í íbúð hennar í miðborg Stokkhólms og var Zetterlund látin þegar slökkvilið kom á vettvang. Hún var fötluð og bundin í hjólastól síðustu ár ævinnar.

Monica Zetterlund sló í gegn sem jasssöngkona skömmu fyrir 1960, þá tæplega tvítug og söng sig inn í hug og hjörtu jassunnenda um allan heim. Hún söng meðal annars með heimsfrægum jassistum á borð við Thad Jones, Bill Evans og Louis Armstrong.

Sömuleiðis naut hún mikillar hylli í heimalandi sínu sem leikkona og lék bæði í kvikmyndum og sjónvarpi. Hún kom til Íslands í lok áttunda áratugarins og hélt tónleika ásamt Pétri Östlund og fleirum.

Meðfædd hryggskekkja og slys sem Zetterlund varð fyrir sem barn batt enda á feril hennar sem leikkonu en hún hélt áfram að syngja þrátt fyrir að vera komin í hjólastól. Síðasta plata hennar, Bill remembered, kom út fyrir fimm árum. Monica Zetterlund var 67 ára gömul þegar hún lést.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×