Erlent

Mikið mannfall í Írak í gær

Á áttunda tug manna týndi lífi og ríflega hundrað særðust í hryðjuverkaárásum í Írak í gær. Uppreisnarmenn hafa færst mjög í aukana síðan nýja ríkisstjórnin tók við. Í það minnsta þrjátíu manns biðu bana þegar maður með sprengiefni innanklæða laumaðist inn á skrifstofu í bænum Hawija, norður af Bagdad, í gærmorgun. Þar var verið að ráða lögreglu- og hermenn til starfa. 35 til viðbótar særðust alvarlega í sprengingunni. Um svipað leyti sprakk öflug bílsprengja á markaði í borginni Tikrit, heimaborg Saddam Hussein. 27 fórust í sprengingunni en 75 særðust. Að sögn sjónarvotta reyndi ökumaður bílsins að aka inn í nálæga lögreglustöð en öryggisverðir vörnuðu honum vegar. Súnníasamtökin Ansar al-Sunnah hafa lýst yfir ábyrgð á tilræðinu. Þá var stærsta áburðarverksmiðja landsins sprengd í loft upp í Basra og fórst einn þar. Bayan Baqir Jabr, innanríkisráðherra, reyndi í sjónvarpsviðtali að róa almenning og lofaði að friður kæmist senn á í landinu. Fátt bendir þó til að það verði í bráð. Uppreisnarmenn hafa fært sig mjög upp á skaftið á síðustu vikum. Um þessar mundir eru gerðar um sjötíu árásir á dag, samanborðið við 30-40 í febrúar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×