Erlent

Óvíst hvað flugmanninum gekk til

Skelfing greip um sig í Washington í Bandaríkjunum síðdegis þegar öllu starfsfólki og gestum bæði í Hvíta húsinu og í þinginu var skipað að yfirgefa húsin hið snarasta. Í ljós kom að lítil einkaflugvél hafði farið inn á flugbannssvæði miðborgarinnar.  Skömmu eftir klukkan fjögur í dag var augljóst að eitthvað mikið var að gerast í Washington; fólk kom hlaupandi út úr Hvíta húsinu og þinghúsinu og öskrandi öryggisverðir skipuðu öllum að hafa sig á brott hið snarasta. Í nokkrar mínútur var ekki vitað hvað var á seyði en sögusagnir fóru á kreik um flugvél sem stefndi í átt að Hvíta húsinu og aðstæður minntu mjög á 11. september 2001. Herþota og herþyrla sáust síðan hringsóla yfir miðborginni í kringum litla Cessnu-flugvél sem var aðeins fimm kílómetra frá Hvíta húsinu. Að lokum sveigði hún af leið í burtu frá borginni og var fylgt til lendingar á nálægum flugvelli þar flugmaðurinn var leiddur á brott í járnum. Hann er nú í yfirheyrslu hjá lögreglu. Enn er ekki vitað hvað honum gekk til eða hvort hann hreinlega villtist af leið. Bannað er að fljúga yfir Washington en flugmaðurinn sinnti í engu ítrekuðum skipunum flughersins og flugumsjónarmanna um að hafa sig á brott. Bush Bandaríkjaforseti var ekki í Hvíta húsinu þegar þetta gerðist en Lára forsetafrú og Nancy Reagan, fyrrverandi forsetafrú sem var í heimsókn, voru báðar fluttar í burtu.
Fjölmiðlafólki hleypt að nýju inn í Hvíta húsið eftir að það hafði verið rýmt um fjögurleytið að íslenskum tíma vegna ótta við hugsanlega hryðjuverkaárás.MYND/AP



Fleiri fréttir

Sjá meira


×