Erlent

Norræn ESB-herdeild stofnuð

Varnarmálaráðherrar Finnlands, Noregs og Svíþjóðar hafa ákveðið að koma á fót sameiginlegri norrænni herdeild, sem ætlað er að verða hluti af hraðliði Evrópusambandsins. Herdeildin á að verða klár í slaginn í ársbyrjun 2008, að því er greint er frá í sænska blaðinu Dagens Nyheter. Vegna undanþágu Dana frá þátttöku í varnarmálasamstarfi ESB, sem þeir sömdu um eftir að Danir höfnuðu fyrst Maastricht-sáttmálanum á sínum tíma (árið 1993), leggja Danir norrænu herdeildinni ekki til neinn liðsafla. Svíar munu leggja til þorra hermannanna, eða 1100 af 1500 mönnum, en Finnar 200 og Eistar væntanlega 50 hermenn. Norðmenn, sem ekki eru í Evrópusambandinu, leggja til 150 hermenn. Að sögn Kristinar Krohn Devold, varnarmálaráðherra Noregs, er norsk þátttaka í þessu verkefni mikilvæg fyrir norska öryggishagsmuni. "Við viljum eiga virkt samstarf við ESB. ESB á eftir að verða mikilvægur vettvangur varnarmálasamstarfs," sagði Devold eftir fund varnarmálaráðherranna í Joensuu í Finnlandi, þar sem áformin voru undirrituð á þriðjudag. Samkvæmt frétt AP-fréttastofunnar af fundinum mun Ísland ákveða síðar með hvaða hætti það leggi verkefninu lið. En samkvæmt upplýsingum sem fengust í utanríkisráðuneytinu í gær kemur Ísland ekki nálægt þessu að neinu öðru leyti en því að sitja reglulega samráðsfundi varnarmálaráðherra Norðurlandanna. Það er gert í nafni svonefndrar Nordcaps-bókunar, sem Ísland varð aðili að árið 2003. Með aðild Svía, Norðmanna, Finna og Dana hófst þetta samstarf árið 1997. Eistar hafa einnig tengst því síðan fulltrúar þeirra hófu að sækja fundi norrænu ráðherranefndarinnar. Norræna herdeildin verður hluti af 14.000 manna hraðliði skipuðu vel þjálfuðum hermönnum sem á að vera hægt að senda með mjög skömmum fyrirvara á vettvang á átakasvæði til að stilla til friðar eða til friðargæsluverkefna. Þetta 14.000 manna hraðlið verður hluti 60.000 manna herliðs sem markmiðið er að Evrópusambandið geti, frá árinu 2007, ráðstafað til ýmissa verkefna í nafni sameiginlegrar öryggis- og varnarmálastefnu þess.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×