Erlent

Umdeild lagabreyting í Egyptalandi

Egypska þingið samþykkti í dag að breyta stjórnarskrá landsins á þann veg að fleiri en einn fái að bjóða sig fram í forsetakosningum, en hingað til hefur þingið tilnefnt einn mann sem þjóðin hefur svo greitt atkvæði um. Það var Hosni Mubarak, forseti Egyptalands, sem lagði til breytingarnar eftir að mjög hafði verið þrýst á hann innan lands sem utan að stuðla að meira lýðræði í landinu, en Mubarak hefur setið á forsetastóli í 24 ár. Stjórnarandstæðingar hafa mótmælt lagabreytingunum og segja skilyrði til forsetaframboðs alltof þröng. Flokkar þurfa til dæmis að hafa starfað í fimm ár áður en þeir geta boðið fram fulltrúa í kosningunum og þá þurfa frambjóðendur að fá stuðning hjá 65 þingmönnum, en stjórnarflokkur Mubaraks forseta hefur yfirgnæfandi meirihluta á þingi og því þarf fulltrúi úr stjórnarandstöðunni að leita til hans um stuðning. Forsetakosningar eru fyrirhugaðar í landinu í september næstkomandi en Mubarak hefur ekki greint frá því hvort hann sækist eftir fimmta kjörtímabilinu í embætti.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×