Erlent

Slasaðist ekki alvarlega í árás

Faðir Jóns Ólafssonar, íslenska öryggisvarðarins sem slasaðist þegar sprengjuárás var gerð á bílalest hans í Írak á laugardag, segir son sinn ekki alvarlega meiddan þrátt fyrir að hann hafi fengið sprengjubrot í andlitið. Með Jóni voru hins vegar sex í för og dóu tveir og slösuðust þrír alvarlega. Ólafur Magnússon, faðir Jóns, hefur verið í stöðugu sambandi við son sinn frá því árásin var gerð. Ólafur segir að eftir árásina hafi skotbardagi hafist sem Jón slapp einnig ómeiddur frá og ekki er þá öll sagan sögð. Ólafur segir að eftir að sonur hans hafi farið út úr bílnum hafi hann bjargað ungri stúlku úr logandi bíl. Innanríkisráðuneyti Íraks hafi sent honum skeyti um að það hefði verið vel gert hjá honum að leggja frá sér byssuna og hjálpa barninu út. Jón hefur starfað í Írak undanfarna mánuði en hann er annars búsettur á Filippseyjum ásamt konu og barni. En er von á Jóni heim í bráð? Ólafur segir son sinn ekki koma hingað til lands á næstunni en trúlega fari hann fljótlega til Filippseyja. Það sé kominn tími til að hann fari í frí þar sem hann hafi verið fjóra mánuði í Írak samfleytt. Svo verði að koma í ljós hvað gerist.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×