Erlent

Stjórnin stendur tæpt

Verkamannaflokkurinn hefur 66 sæta meirihluta í breska þinginu en úrslit bresku þingkosninganna lágu endanlega ljós fyrir í gær. Sá meirihluti gæti reynst ríkisstjórninni of naumur til að koma umdeildum málum í gegn. Endanlegar lyktir bresku þingkosninganna eru þær að Verkamannaflokkurinn fékk 356 þingsæti, íhaldsmenn 197, frjálslyndir demókratar 62 og aðrir flokkar 30. Kosningu í syðra Staffordskíri var frestað um mánuð þar sem einn frambjóðendanna andaðist á lokaspretti baráttunnar. Greining dagblaðsins The Independent á úrslitunum sýnir að þeir stjórnarþingmenn sem ekki lutu flokksaga á síðasta kjörtímabili voru endurkjörnir í nægilega ríkum mæli til að geta fellt umdeild stjórnarfrumvörp í þinginu. 66 sæta meirihluti er því afar tæpur fyrir Tony Blair. Tveir af fjórum nýjum ráðherrum í ríkisstjórninni, þeir Des Brown, ráðherra innflytjendamála, og Douglas Alexander, Evrópumálaráðherra, eru mjög handgengnir Gordon Brown, fjármálaráðherra. Það þykir til marks um að Blair muni víkja fyrir Brown fyrr en síðar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×