Erlent

Ekki saksóttur fyrir dráp á Íraka

MYND/AP
Bandarískur hermaður sem skaut særðan og óvopnaðan Íraka til bana úr návígi verður ekki sóttur til saka. Framganga hans var í samræmi við reglur hersins.  Sjónvarpsmyndir af atvikinu vöktu hörð viðbrögð um allan heim en á myndunum má sjá hvernig hermaður stendur yfir því sem virðist hreyfingarlaus skrokkur vopnlauss Íraka. Fúkyrði heyrast í bakgrunni og svo skýtur hermaðurinn Írakann til bana. Rannsókn á atvikinu hefur nú staðið í fimm mánuði en í gærkvöldi greindu talsmenn bandaríska landgönguliðsins frá því að hermaðurinn yrði ekki sóttur til saka. Framganga hans hefði verið eðlileg og í samræmi við vinnureglur hersins undir sambærilegum kringumstæðum. Atvikið átti sér stað inni í mosku í Fallujah skömmu eftir að Bandaríkjaher tókst að berja niður uppreisn þar. Bandaríska landgönguliðið lítur svo á að hermaðurinn hafi skotið Írakann vopnlausa til bana í sjálfsvörn. Það mun hafa haft áhrif á niðurstöðuna að hermenn höfðu verið varaðir við því að uppreisnarmenn þættust vera dauðir til þess að gabba hermenn og að lík væru tengd sprengjum. Því hefði hermaðurinn óttast um líf sitt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×